Alda Villiljós is a queer witch, astrology student and creator. They are passionate about inclusivity and intersectional approaches in everything they do and are always interested in learning new things and developing their practice. Alda offers astrology readings, Tarot and Rune readings as well as dream interpretation on a sliding scale.
Afturhvarf (e. Retrograde motion) er orð sem er notað yfir sérstakt fyrirbæri í stjörnuspekinni. Mörg okkar hafa heyrt um Merkúr afturhvörf, enda gerast þau u.þ.b. þrisvar á ári, en internetið er fullt af misvísandi upplýsingum um afturhvörf auk þess sem lítið er talað um það þegar aðrar plánetur fara í afturhvarf.
Afturhvarf er í raun tækifæri til að prófa nýtt sjónarhorn, og tími til að velta hlutunum betur fyrir sér.
Til að útskýra hvað afturhvörf eru fékk ég lánaða þessa hreyfimynd frá laurencehillman.com, en hún útskýrir vel þessa stöðu.
Blái punkturinn er Jörðin og rauði punkturinn er Mars (en gæti verið hvaða önnur pláneta sem er). Þar sem bæði Jörðin og Mars fara í hringi í kringum Sólina lítur það stundum út frá okkar sjónarhorni eins og Mars hafi stoppað á himnum, og fari í smá stund afturábak - þetta er eitthvað sem forforeldrar okkar gátu séð með berum augum og bæði forn-Grikkir og Babýlóníufólk til forna skrifuðu um.
Stjörnuspeki er nefnilega alltaf mæld út frá sjónarhóli Jarðarinnar, og þess vegna fara allar plánetur* - nema Tunglið (sem fer í hringi í kringum okkur) og Sólin (sem við förum í hringi í kringum) í afturhvörf.
Eins og fyrr sagði fer Merkúr í afturhvarf u.þ.b. þrisvar á ári, þar sem Merkúr er hraðasta plánetan. Venus virðist fara afturábak á 18 mánaða fresti og Mars á u.þ.b. tveggja ára fresti. Þar sem ytri pláneturnar hreyfast mun hægar stjórnast sjónhverfing þeirra af hreyfingu Jarðarinnar, og því fara þær allar í afturhvarf einu sinni á ári, þó mislengi og á mismunandi tímum. Hvert afturhvarf hefur mismunandi þemu sem miðast af plánetunni og merkinu sem þær ferðast um í gegnum afturhvörfin.
Eins og sést af hreyfimyndinni hér að ofan hefur Mars næstum klárað að fara í gegnum merki Bogamannsins, en stoppar á síðustu gráðum merkisins (hvert merki er 30°) og fer aftur til baka í gegnum merkið áður en hán ferðast inn í merki Steingeitarinnar. Þess vegna er oft talað um að afturhvörf beri með sér þrjár mikilvægar dagsetningar: þegar plánetan snertir fyrst ákveðna gráðu á ferð sinni í gegnum merki, í annað skiptið þegar plánetan ferðast afturábak yfir sömu gráðu, og svo í þriðja skiptið þegar plánetan er aftur á réttsælis leið sinni. Þetta er ekki alveg algilt, þar sem oft erum við að fylgjast með samtali plánetunnar** við annað himintungl og vegna hreyfingar annarra himintungla gæti það samtal bara gerst tvisvar, en þetta er samt algeng regla.
Þann 14. október stansaði Merkúr loks á himnum og byrjar nú að færast til baka í stjörnumerkinu Sporðdreka. Hán mun fara alla leið aftur inn í merki Vogarinnar áður en hán stansar aftur, og snýr sér loks við þann 3. nóvember og fer þá enn á ný inn í Sporðdrekamerkið nokkrum dögum seinna. Í sömu viku, eða þann 14. nóvember, stansar Mars loksins, en Mars hefur verið í afturhvarfi síðan 10. september í merki Hrútsins. Því mun afturhvarf Merkúr allt eiga sér stað á meðan Mars er í afturhvarfi, sem getur gert hlutina sérstaklega snúna.
Þegar Merkúr snýr sér við er algengt að fólk lendi í vandræðum með tækni, skilaboð, samskipti og ferðalög, enda ræður Merkúr yfir öllum þessum hlutum. Þemað sem öll vandræðin snúast um er þó oftast eitthvað sem minnir okkur á að stoppa sjálf og horfa til baka, líkt og plánetan er að gera. Til dæmis gætum við fengið skilaboð frá gömlum vin eða fyrrverandi, eða fundið fyrir þörf til að senda slík skilaboð sjálf. Við gætum lent í seinkunum sem valda áframhaldandi vandræðum á ferðalagi og við gætum þurft að endurskipuleggja framhald ferðarinnar. Tölvupóstur (eða annar póstur!) er gjarn á að týnast eða sendast ekki, og við höfum ekki jafn mikla þolinmæði til að lesa vel í gegnum skilaboð eða samninga áður en við svörum eða skrifum undir.
Mars getur ýtt enn meira undir fljótfærnina okkar á þessu tímabili og getur gert þráðinn okkar sérstaklega stuttan. Umferðarofsi er gott dæmi um hlut sem getur komið sérstaklega sterkt fram, sem og óþolinmæði fyrir því að bíða í röð - sérstaklega þegar við höfum öll þurft að hægja á okkur og halda meiri fjarlægð þökk sé Covid. Pirringur yfir því að þurfa að vera með grímu, yfir því að aðrir séu ekki með grímu, óþolinmæði yfir því að eiga erfitt með að skilja aðra eða að aðrir skilji þig vegna grímunnar, að nenna ekki að bíða eftir því að sjálfsafgreiðslukassinn sé sprittaður í bak og fyrir og svo mætti lengi telja - það er sérstaklega margt sem er auðvelt að pirra sig yfir í samfélaginu akkúrat núna. Á aðeins stærri skala mætti líka skoða átökin í samfélaginu yfir nýju stjórnarskránni, Mannanafnanefnd, forsetakosningum Bandaríkjanna og fleira. Mars getur líka gefið okkur eldmóð til að berjast fyrir málum sem okkur er annt um.
Í ár er sérlega mikið um að vera í stjörnunum, en meðal þess mikilvægasta er það sem margir stjörnuspekingar hafa byrjað að kalla „Covid-klessuna“ (e. “The Covid-clump”), en það á við um stöðu þriggja ytri plánetna; Júpíters, Satúrnusar og Plútós, í síðustu gráðum Steingeitarinnar. Þessar þrjár plánetur hafa verið að rekast á hvor aðra á sömu gráðum merkisins í gegnum árið, en Satúrnus og Plútó hittust þar fyrst á sama tíma og almenningur heyrði fyrst um þennan nýja vírus (12. janúar), og Júpíter bættist í hópinn á sama tíma og flest lönd heimsins voru að byrja einangrun sína (5. apríl). Hreyfingar þessara plánetna má rekja í gegnum veirufaraldurinn sem og samfélagslegt upprót í jafnréttismálum og jafnvel náttúruhamfarir, og stefni ég á að rekja það betur í annarri grein. Í bili vil ég benda aðeins á áhrif Mars á Steingeitarhópinn, því þau áhrif eru líka auðveldlega rekjanleg.
Að vissu leyti má skoða allan tímann sem Mars hefur verið í Hrút (29.06.20 - 07.01.21) sem togstreitu við Steingeitina, því Hrúturinn og Steingeitin eiga oft erfitt með að „tala saman“ - þau eru í afstöðu sem kallast á ensku Square. Það er því hægt að segja að Mars sé að kynda undir því þegar erfiða „samtali“ sem Júpíter, Satúrnus og Plútó eru að eiga út allt árið, og þá sérstaklega frá ágúst til ársloka, því þá er Mars á svipuðum gráðum innan merkisins og hinar pláneturnar. Árið í ár hefur verið merkilegt að því leyti að stjörnuspekin hefur oft á tíðum verið óþægilega bókstafleg, eins og þegar hræðileg sprenging varð í Beirút á sama tíma og Mars, pláneta tengd sprengingum og eldi, fór fyrst í square afstöðu við Steingeitarhópinn - eða þegar gríðarlegir skógareldar blússuðu upp í mörgum fylkjum Bandaríkjanna og margir vöknuðu við eldrauðan himinn sama dag og Mars stansaði á himnum til að búa sig undir að færa sig afturábak.
Í október hefur Mars verið í nokkuð nákvæmri square afstöðu við bæði Satúrnus og Plútó. Sólin í Vog hefur flækst inn í þetta samband líka, þar sem Vogin er í sömu square afstöðu við Steingeitina, og akkúrat andstætt Hrútnum. Dagana 13. - 17. október er Sólin á sömu gráðum og bæði Mars og Plútó, og það getur gert andrúmsloftið sérstaklega erfitt, þvingað eða þrúgandi. Þetta er líklegt til að hafa sérstaklega mikil áhrif fyrir þau okkar sem eru með innri plánetur (Sól, Mána, Merkúr, Venus, Mars) eða Rísandi í Vog, Steingeit, Hrút eða Krabba. Það er því ekkert skrítið að mörg okkar séu orkulaus, pirruð eða finnum fyrir vonleysi.
Sem betur fer er von framundan. Síðasti hittingur stóru plánetanna þriggja mun gerast á vetrarsólstöðum, þann 21. desember, en þá hittast Júpíter og Satúrnus á fyrstu gráðu Vatnsberans. Þó að við séum ekki að byrja þá öld Vatnsberans sem sungið er um þá erum við að byrja mikilvæga breytingu. Júpíter og Satúrnus hittast á himnum á u.þ.b. 20 ára fresti og eru oft merki um samfélagslegar breytingar. Þessir fundir plánetanna gerast í sama frumefni, þ.e.a.s. í merkjum tengdum sama frumefninu í um 200 ár í einu. Síðan 1802 hafa allir þessir fundir gerst í Jarðarmerkjum (með einni undantekningu þó, því 1980 gerðist einn fundur í Loftmerki). Í desember hittast Júpíter og Satúrnus loks í Loftmerki, og byrja um 200 ára ferðalag í gegnum Loftmerkin. Margir stjörnuspekingar sjá þetta sem loforð um að við séum að færa okkur í burtu frá því að nýta Jörðina og tæmandi auðlindir hennar og nær því að nýta endurnýjanlega orku, tækni sem gerir okkur kleift að lifa í samlindi við Jörðina og aðrar lífverur, og fleiri tækniframfarir. Hittingur Júpíters og Satúrnusar í Loftmerki árið 1980 er einmitt ákveðið loforð um þær tækniframfarir sem við gætum byrjað að sjá á næstu 200 árum, en í kringum það ár varð uppsveifla í útbreiðslu internetsins, framfarir í geimvísindum, farsímar komu á markaðinn og margt fleira. Við getum líka vonað að mannkynið færi sig í burtu frá græðgi, efnishyggju og eigingirni, sem eru með verstu eiginleikum Jarðarmerkjanna, og í átt að betri samskiptum, jafnrétti og hugmyndum sem færa okkur áfram, sem eru með bestu eiginleikum Loftmerkjanna.
* Ég mun nota ýmist hnettir, plánetur eða himintungl, þó að í stjörnuspeki sé almennt talað um Plútó, Tunglið og Sólina sem plánetur.
** Samtölin milli himintunglanna geta verið ýmiss konar, og geta verið samtöl afturhverfandi plánetu við staðsetningu í okkar persónulega korti, eða við annað himintungl á himnum. Sem dæmi mætti nefna að ef Merkúr fer í afturhvarf í gegnum Sólarmerkið þitt, og fer í gegnum þá gráðu sem Sólin þín er á, er líklegt að þú finnir sérstaklega mun meira fyrir því afturhvarfi en öðrum - og til að fá nákvæmari upplýsingar um hvað það þýðir fyrir þig mæli ég með því að ráða stjörnuspeking til að skoða það í samhengi við restina af kortinu þínu.
Comentários